Misvísandi skilaboð um afnám hafta gæti hafa hafa aukið á þær sviptingar sem voru á hlutabréfamarkaði í síðustu viku. Þetta segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka. Eins og fram hefur komið lækkaði gengi hlutabréfa töluvert um miðja síðustu viku eftir að Hagamelur, félag Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar, seldi hlut sinn í Högum.

Greining bendir á fleiri ástæður lækkunarinnar, þar á meðal pólitískar ástæður. „Fjármálaráðherra sagði nýverið að þegar væri unnið í samræmi við slíka áætlun en þingmaður stjórnarandstöðu sem starfar í nefnd um afnám hafta kannaðist ekki við slíka áætlun. Á sama tíma boðar forsætisráðherra að áætlun um afnám hafta yrði ekki gerð opinber,“ segir í Greiningu Íslandsbanka.

Greining Íslandsbanka segir að ekki sé hægt að segja til um hvort sú staðreynd hafi bætt samningsstöðu ríkisins við kröfuhafa föllnu bankanna. „Hitt er hins vegar staðreynd að óopinberar aðgerðaráætlanir er varðar markaði getur ýtt undir óeðlilegar hreyfingar á mörkuðum sérstaklega ef markaðsaðilar hræðast að ekki sitji allir við sama borð um aðgengi að upplýsingum um áætlunina og framgang hennar,“ segir í Greiningunni.