Vaxtaferillinn á peningamarkaði gefur til kynna væntingar um að frekari hækkun stýrivaxta næsta hálfa árið verði fremur lítil, segir greiningardeild Glitnis.

Einnig gefa fólgnir vextir til kynna að þriggja mánaða vextir verði lægri eftir níu mánuði en þeir verða á næstu mánuðum. Hafa ber þó í huga að lögun vaxtaferilsins ræðst af flæði fjármagns um þessar mundir en ekki aðeins af væntingum manna um ákvarðanir Seðlabankans.

Hátt vaxtastig Seðlabankans á seinni hluta síðasta árs framkallaði geysilegt innflæði gjaldeyris til landsins vegna útgáfu krónubréfa á vegum útlendinga sem vildu spila á vaxtamuninn, segir greiningardeildin.

Niðurhallandi vaxtaferill síðustu mánuðina var afleiðing þessa þrátt fyrir væntingar manna um hærri stýrivexti. Nú bendir flest til þess að útgáfa krónubréfa verði lítil á næstu mánuðum enda hafa kaupendur almennt tapað á bréfunum og íslenska hagkerfið þykir vafasamur kostur í hugum útlendinga.

Af þessum sökum hefur lögun vaxtaferilsins breyst og er hann nú upphallandi á ný. Segja má að upphallandi ferill rími betur við horfur um hækkandi stýrivexti á næstunni þótt fólgnir vextir gefi enn fremur misvísandi mynd af líklegustu þróun stýrivaxta.