Væntingar markaðsaðila um framgang stýrivaxta eru mismunandi eftir því hvort litið er til könnunar sem Seðlabankinn gerði eða til framvirka vaxta. Samkvæmt framvirkum vöxtum virðast markaðsaðilar vænta þess að stýrivextir Seðlabankans haldist óbreyttir fram á næsta ár. Könnun á væntingum markaðsaðila bendir hins vegar til þess að þeir búist við um 0,25 prósenta viðbótarhækkun á þessu ári.

Seðlabanki Íslands tilkynnti í morgun um þá ákvörðun peningastefnunefndar að halda vöxtum óbreyttum . Nýjasta útgáfa Peningamála var einnig gefin út.

Þar kemur fram að líklegt sé að mælivandamál á stysta enda vaxtaferilsins leiði til þess að vísbendingar um væntingar markaðsaðila séu óvissari en ella. Mælivandamálið skýrist af óskilvirkni innlends millibankamarkaðar.