Bandaríski MIT háskólinn hefur gengið til samstarfs við Firestarter tónlistarhraðalinn, sem hægt er að skrá sig í fram til mánaðamóta en að honum standa Icelandic Startups, Tónlistarborgin Reykjavík og Úton, útflutningsstofa íslenskrar tónlistar.

„Einnig njótum við góðs stuðnings frá höfundarréttarsamtökunum Samtóni, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og Senu Live,“ segir Melkorka Sigríður Magnúsdóttir, verkefnisstjóri hjá Icelandic Startups en samstarfið kom nokkuð óvænt upp.

„Sena Live rekur ráðstefnuhluta Iceland Airwaves þar sem lokakvöld tónlistarhraðalsins verður haldið, en MIT Bootcamp hafði samband við fyrirtækið því skólinn hefur mikinn áhuga á því að skoða þetta samband nýsköpunar og tónlistar. Þeir hafa verið með það sem þeir kalla Bootcamp, eða undirbúningsbúðir, víðsvegar um heiminn með alls konar þemum og ég held þeim hafi þótt Ísland spennandi land vegna þess hversu áberandi listir, menning og ýmiss konar skapandi geirar hafa verið í að vekja athygli á okkur.“

Melkorka segir að út frá þessu samtali hafi sprottið sú hugmynd að koma á samvinnu við Firestarter tónlistarhraðalinn. „Það koma hingað þrír reynslumiklir þjálfarar sem munu halda ráðgjafafundi með teymunum úr Firestarter og kafa aðeins dýpra í viðskiptamódelið þeirra auk þess að skoða kynninguna sem teymin munu halda seinna um daginn, á lokadegi tónlistarhraðalsins. Loks mun einn þeirra, sem er sérfræðingur bæði úr tónlistar- og nýsköpunarheiminum, halda erindi,“ segir Melkorka.

„Það eru alveg ótrúlega mikil verðmæti fólgin í því fyrir teymin að fá inn þessa þjálfara til að hakkast aðeins í hugmyndum þeirra. Hryggjarstykkið í svona nýsköpunarhröðlum er einmitt aðkoma svona sérfræðinga, sem koma inn og ráðleggja teymunum. Þarna erum við að bæta við hraðalinn fólki úr einni virtustu útungunarmiðstöð heims á nýsköpunarfyrirtækjum. Meðal íslenskra sérfræðinga erum við svo til dæmis með Ólaf Arnalds, Georg Hólm úr Sigurrós og Margréti Júlíönu Sigurðardóttur tónlistarfrumkvöðul og stofnanda Mússila, tölvuleiks sem gerir börnum kleyft að læra grunnatriði tónlistar.“

Icelandic Startups hefur byggt upp allskyns nýsköpunarhraðla á síðustu árum en þetta er í fyrsta sinn sem haldinn er sérstakur tónlistarhraðall. Melkorka segir þennan hraðal styttri en aðra sem fyrirtækið er með.

„Þetta eru fjórar vikur og við stefnum á að taka inn um fimm til sjö teymi. Við höfum fengið margar fyrirspurnir og eitthvað af umsóknum, en við erum að leita að ýmiss konar tæknitengdum tónlistarlausnum. Í hraðlinum geta verið ýmiss konar tónlistartengd fyrirtæki, tónlistarhátíðir, tónleikastaðir og aðrir sem vilja styrkja viðskiptamódelið sitt, bókunarskrifstofur eða umboðsmenn, í raun allir sem eru að vinna í umgjörðinni sem styður við íslensku tónlistarsenuna á einn eða annan hátt.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .