*

föstudagur, 19. júlí 2019
Erlent 20. apríl 2016 12:55

Mitsubishi falsaði eldsneytispróf

Bílaframleiðandinn japanski hefur játað að hafa svindlað á eldsneytisnýtingarprófum.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Forstjórar Mitsubishi í Japan tilkynntu á blaðamannafundi í dag að rúmlega 600 þúsund bifreiðar frá fyrirtækinu hefðu verið notaðar í umfangsmiklu eldsneytisprófunarsvindli. Þá höfðu tölur um loftþrýsting í dekkjum smábílanna verið falsaðar til þess að framkalla betri tölur í nýtingarprófinu. BBC segir frá þessu.

Eftir að tilkynningin var gefin út féllu hlutabréf félagsins um 15% á hlutabréfamörkuðum í Tokyo. Við byrjun fundarins hneigðu forstjórar fyrirtækisins að japönskum sið, áður en þeir útskýrðu að svindlið hefði verið meðvitað og viljandi - þótt þeir hefðu ekki vitað af því.

Bílarnir sem um ræðir eru ek Wagon, eK Space, Dayz og Dayz Roox. Tilkynning barst frá umboði Mitsubishi á Íslandi þar sem segir að þessar tegundir Mitsubishi séu ekki til sölu hér á landi og því tengist það Íslandi ekki á nokkurn hátt.

Stikkorð: Bílar Mitsubishi Svindl