Iðnaðarráðherra undirritar í dag viljayfirlýsingu við Mitsubishi Motors Corporation og Mitsubishi Heavy Industries um prófanir á rafbílum af gerðinni i-MiEV, uppsetningu þjónustunets fyrir rafhleðslu bílana og tilraunir með nýja eldsneytistegund.

Í yfirlýsingunni er rætt um samstarf við að ná langtímamarkmiðum ríkisstjórnarinnar um að gera Ísland óháð jarðefnaeldsneyti. Ræðir þar helst um uppsetningu verksmiðja sem framleiða tilbúið eldsneyti sem nefnist DME (dimethyl ether).

DME er unnið úr koltvísýringi sem fangaður er úr útblæstri álvera og jarðvarmavirkjana. Talsmenn Iðnaðarráðuneytisins segja að DME geti komið í staðinn fyrir dísel, og megi nota óblandað á fiskiskipaflotann með litlum breytingum.

Þjónustunetið mun að sögn Jóns Trausta Ólafssonar, markaðsstjóra Heklu, bjóða upp á bæði hrað-hleðslu á batteríum og skipti-þjónustu, þar sem tómu batteríi er skipt út fyrir fullhlaðið án tafar. Hann segir að Mitsubishi Heavy Industries muni annast uppsetningu netsins.

Að sögn Guðna A. Jóhannessonar, orkumálastjóra, verður þjónustunetið jafnframt hugsað þannig að það bjóði upp á hleðslu- og áfyllingarmöguleika fyrir ólíkar tegundir vistvænna bifreiða.