Spjallþáttastjórnendur í bandarísku sjónvarpi hafa oftar gert grín að Mitt Romney, forsetaefni Repúblikana, en Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, og keppinauti Romney um forsetastólinn. Munurinn er talsverður en fyrir hvert skiptið sem grín er gert að forsetanum fær Romney tvær gusur á sig á móti.

Þetta á við um þáttastjórnendur á borð við Jay Leno, David Letterman og Jimmi Fallon, sem íslenskir sjónvarpsáhorfendur ættu margir að kannast við.

Könnunin sem niðurstöðurnar byggjast á ættu að vera áreiðanlegar en það var rannsóknarsetrið Center for Media and Public Affairs í Bandaríkjunum sem kannaði málið í þaula. Í könnuninni kom m.a. fram að í 290 skipti var grín gert að Repúblikönum í spjallþáttum en í 138 skipti að Demókrötum. Þar af var Mitt Romney skotspónn í 148 skipti en Obama í 62.

Á meðal annarra sem helst var gert grín að í hópi Repúblikana voru Arnold Schwarzenegger, Paul Ryan og Clint Eastwood en Bill Clinton og Joe Biden úr röðum Demókrata.

Fréttastofan Fox News hefur eftir sérfræðingi um málið ástæðuna fyrir því að Romney verði oftar en aðrir fyrir barðinu á gríninu þá að hann sé nokkuð íhaldssamur, ríkur, Mormóni með óaðfinnanlega hárgreiðslu sem hafi hvorki látið áfengi né gosdrykki inn fyrir sínar varir.