„Staðan í þessari deilu er mjög alvarleg," segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA). Fyrir helgi slitnaði upp úr kjaraviðræðum SA við Starfsgreinasamband Íslands.

„Það kom skýrt fram af hálfu Starfsgreinasambandsins að þeir kvika í engu frá kröfum sínum," segir Þorsteinn. „Við höfum sagt að þessi kröfugerð snúi ekki sérstaklega að hækkun lægstu launa. Staðreyndin er sú að miðað við útfærslu Starfsgreinasambandsins er þetta 50 til 70% launahækkun. Lægstu laun hækka í 300 þúsund og síðan er þetta stighækkandi prósentutölur upp launataxtann. Hæstu prósentubreytingarnar eru í hæstu töxtunum. Þetta eru algjörlega óásættanlegar kröfur að okkar mati.

Við höfum farið ítarlega farið yfir efnahagslegar afleiðingar af slíkum hækkunum með Starfsgreinasambandinu. Hvaða áhrif þetta hefði á verðbólgu, vaxtastig og hækkandi verðbætur húsnæðislána en þeir kvikuðu í engu. Með því er Starfsgreinasambandið að hafna þeim stöðugleika og árangri sem hefur náðst á undanförnu einu og hálfu ári og ætla að knýja sínar kröfur í gegn með verkföllum og á því verður Starfsgreinasambandið að axla fulla ábyrgð."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .