Landssamtök sauðfjárbænda og Matvælastofnun sendu nýlega út ítarlega spurningakönnun til allra sauðfjárbænda vegna óvenjumikils óútskýrðs ærdauða í vetur og vor, en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökunum. Niðurstöður könnunarinnar eru sláandi og er ástandið sagt mjög alvarlegt. Kemur fram að ærdauði hafi meira en tvöfaldast frá síðasta ári.

Um hádegi í dag höfðu 223 bændur svarað könnuninni og hafa margir þeirra misst fleira fé en eðlilegt getur talist. Á einstaka bæjum er ástandið mjög alvarlegt þó sumir bændur hafi ekki fundið fyrir neinu óvenjulegu.

Alls hafa 2.741 ær drepist í vor og vetur hjá þeim 223 bændum sem svarað hafa könnuninni, en búast má við fleiri svörum á næstunni. Af þessum 2.471 ám voru 1.345 þeirra óbornar, eða rétt tæpur helmingur. Í tilkynningunni segir að reikna megi með því að heildartala dauðra áa sé enn hærri en þessar tölur gefa til kynna, enda hafi margir ekki enn svarað. Þá hefur lambadauði einnig verið mikill í vor.

Meira en tvöfalt fleiri ær hafa drepist en árið á undan

Til samanburðar drápust 1.242 ær á heilu ári þar á undan, eða haustið 2013 til hausts 2014. Þetta er meira en tvöföldun, jafnvel þó tímabilið sé styttra. Landssamtök sauðfjárbænda hófu rannsókn á ærdauðanum þann 9. júní og kom fljótlega í ljós að vandamálið er útbreitt, þó mest um vestan- og norðanvert landið. Þrátt fyrir viðamiklar rannsóknir bólar ekkert á skýrum svörum.

Matvælastofnun hefur nú valið 10 fjárbú til rannsókna og sýnatöku. Tekin verða blóðsýni og auk þess verða valdar veikburða ær til krufningar. Um 20 sýni verða tekin á hverjum bæ, 10 úr sauðfé sem sýnir einkenni og 10 úr sýnilega heilbrigðu fé. Samtals verða því tekin sýni úr um 200 ám.