Stórt bil er á milli eigna og skuldbindingar LSR, en mjög erfitt er að taka á vanda sjóðsins með því að hækka lífeyrisaldur eða skerða réttindi, að sögn Hauks Hafsteinssonar, framkvæmdastjóra.

„A- og B-deildirnar eru mismunandi. Langstærstur hluti skuldbindinga B-deildarinnar eru áfallnar skuldbindingar. Framtíðarskuldbindingar B-deildarinnareru ekki nema um 10% af heildarskuldbindingunum. Það að hækka lífeyrisaldurinn myndi því ekki hafa nema óveruleg áhrif á Bdeildina, sérstaklega þegar haft er í huga að það yrði væntanlega gert á mjög löngum tíma, tíu til tuttugu árum. Það að skerða lögbundin, áunnin réttindi er mjög flókið mál og myndi væntanlega reyna réttmæti þess fyrir dómstólum.“

Hann segir að sér þyki mjög líklegt að dómstólarnir kæmust að þeirri niðurstöðu að um eignarréttarvarin réttindi væri að ræða. „Það er því engin töfralausn til að minnka þessa áföllnu ábyrgð ríkisins. Í tilviki B-deildarinnar eru í raun tvær leiðir færar, annað hvort að bíða þar til ábyrgðin fellur með fullum þunga á ríkissjóð eða að hefja að nýju inngreiðslur í kerfið. Ég er á þeirri skoðun að síðari kosturinn sé mun betri og það mætti byrja á tiltölulega hóflegum inngreiðslum á allra næstu árum og auka þær svo með tíð og tíma.“

Ítarlegt viðtal við Hauk er að finna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.