José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) sagði í sjónvarpsþætti á BBC í morgun að það yrði "erfitt, ef ekki ómögulegt" fyrir sjálfstætt Skotland að gerast meðlimur að Evrópusambandinu. Guardian greinir frá málinu.

Barroso sagði í þættinum að þau ríki ESB sem ættu í viðræðum við eigin sjálfstjórnarríki sem sæktust eftir sjálfstæði myndu nær örugglega reyna að koma í veg fyrir að Skotland rynni inn í ESB. Sagði Barroso að Skotland yrði að sækjast eftir aðild að ESB eins og önnur utanaðkomandi ríki.

Taldi Barroso að það yrði mjög erfitt að sannfæra önnur ESB lönd um að samþykkja að Skotland yrði sjálfkrafa hluti af ESB eftir að landið sliti sig frá Bretlandi og benti meðal annars á að Spánn hefði í fyrri tíð lagst hart gegn því að Kosovo yrði viðurkennt sem sjálfstætt ríki. Að mati Barroso væri hér um svipað mál að ræða þar sem sum aðildarríki ESB myndu ekki vilja viðurkenna tilvist ríkja sem hefðu áður tilheyrt öðru ríki innan ESB.

Tímabili Barroso sem framkvæmdastjóra ESB lýkur í október næstkomandi. Hefur hann áður minnst á að ný ríki, á borð við Skotland, yrðu að sækja aftur um aðild að ESB ef þau slitu ríkjasambandi við núverandi ríki innan ESB.

Skotar munu kjósa um sjálfstæði í atkvæðagreiðslu þann 18. september næstkomandi.