Afkoma norskra laxeldisfyrirtækja var mjög góð á fjórða fjórðungi og í mörgum tilvikum yfir væntingum greinenda segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Þar kemur fram að þrjú stór fyrirtæki, Pan Fish, Fjord Seafood og Cermaq, hafa skilað uppgjörum síðustu daga og var afkoman mun betri en á sama tíma í fyrra.

Ástæðan er hátt heimsmarkaðsverð á laxi auk þess sem sameining fyrirtækja hefur lækkað framleiðslukostnað. Meðalverð á ferskum útfluttum laxi frá Noregi var þannig 25% hærra á fjórða fjórðungi 2005 m.v. fjórða fjórðung 2004. Samtals nam hagnaður fyrirtækjanna þriggja 607 milljónum NOK á þriðja fjórðungi, sem jafngildir 5,7 mö.kr. Sá hagnaður varð reyndar ekki allur til í eldisstarfsemi því fyrirtækin stunda einnig annars konar sjávarútvegsrekstur að því er segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Framlegðin (EBITDA) hjá Cermaq var best hjá félögunum þremur, eða 33% af tekjum þegar eldisstarfsemin er einungis tekin með (Mainstream). Framlegð Pan Fish nam 23% og hjá Fjord var framlegðarhlutfallið 20%. Verð á hlutabréfum i fyrirtækjunum þremur hefur hækkað talsvert frá á árinu. Gengi bréfa í Fjord hefur hækkað um 28%, Pan Fish um 22% og Cermaq um 21%.

Horfur í laxeldisstarfseminni eru nokkuð góðar samkvæmt tilkynningum með uppgjörunum. Áfram er búist við að verð á laxi muni haldast þokkalega hátt á þessu ári en fari þó að gefa eftir á seinni hluta ársins og verði nokkru lægra á næsta ári.