„Það er búin að vera mjög góð sala á útileguvörum í sumar,” segir Magnús Kjartan Sigurðsson, framkvæmdastjóri Rúmfatalagersins. “Ég er mjög ánægður með söluna í útilegu- og sumarvörum. Það hefur verið talsverð aukning frá því í fyrra.”

Hann segir að salan á viðlegubúnaði standi að mestu yfir frá því í maí og fram yfir verslunarmannahelgi, en þá detti botninn venjulega úr sölunni. Lítið sé þó um að tjöld, svefnpokar og annar viðlegubúnaður fari á útsölu.

Tjaldhælar vandfundnir

Samkvæmt lauslegri könnun Viðskiptablaðsins hafa ýmsar vörutegundir í viðlegubúnaði hjá verslunum Rúmfatalagersins hreinlega selst upp. Sama má segja um aðrar verslanir og hjá Ellingsen nefndi starfsmaður sem dæmi að tjaldhælar væru fyrir löngu uppseldir og sér virtist sem þeir fengjust hreinlega ekki lengur í landinu.

Magnús segir að verðið á útileguvörum hafi óneitanlega hækkað nokkuð í ár vegna lækkunar á gengi og hærra innkaupsverðs. Þá hafi verið lítið um að vörur hafi verið til á lager frá fyrra ári. Það hafi samt ekki slegið á aðsókn viðskiptavina í verslanir fyrirtækisins enda mikill fjöldi fólks lagst í ferðalög innanlands í sumar. Þá hafi nýja verslunin á Korputorgi gengið vel og alveg samkvæmt áætlun.

Rúmlega 200 manns eru nú á launaskrá hjá Rúmfatalagernum í ríflega 100 stöðugildum. Magnús segir starfsmannafjöldann þó talsvert breytilegan eftir árstíðum.