Hlutabréf í Icelandair Group féllu um tæp 24 prósentustig í gær, í kjölfar afkomuviðvörunar frá félaginu. Lífeyrissjóður verzlunarmanna, sem er einn stærsti eigandi Icelandair Group, hefur í kjölfarið sent frá sér fréttatilkynningu vegna fjölmiðlaumfjöllunar um vangaveltur hvort að lífeyrissjóðurinn hafi orðið fyrir tjóni vegna verðfallsins.

Sjóðurinn á 14,7% hlut í Icelandair Group. Mikill meirihluti hlutafjárins eða 65% var keyptur árið 2010 á genginu 2,5, sem er mun lægra en lokagengi hlutabréfanna var í gær. „Vegið kaupgengi eignarhlutar sjóðsins í Icelandair Group er 3,7. Lokagengi gærdagsins var 16,8. Verðmæti hlutabréfanna nú er því meira en fjórfalt kaupvirði þeirra,“ segir í fréttatilkynningunni.

Að lokum bendir sjóðurinn á það að þegar tekið hefur verið tillit til 1.523 milljón króna arðgreiðslna er árleg meðalraunávöxtun þessarar fjárfestingar frá 2010 til dagsins í dag 32,34%, sem telst góð afkoma.