Rekstur HB Granda gekk afar vel á fyrsta fjórðungi ársins og voru það nokkrir samverkandi þættir sem ollu því. Rekstrartekjurnar jukust úr 41,9 milljónum evra á fyrsta fjórðungi 2014 í 53,3 milljónir í ár og EBITDA jókst úr 9,2 milljónum evra í 21,4 milljónir og var því 40,1% af rekstrartekjum. Hagnaður fyrir tekjuskatt var 17,5 milljónir evra á fyrsta fjórðungi þessa árs, en var 6,8 milljónir í fyrra og hagnaður tímabilsins jókst úr 5,6 milljónum evra í 13,8 milljónir.

Handbært fé frá rekstri nam 6,9 milljónum evra á tímabilinu, en nam 4,2 milljónum á sama tíma fyrra árs. Nettó fjárfesting í rekstrarfjármunum nam 2,1 milljón evra og fjárfesting vegna nýrra skipa nam 9,1 milljón.

Sigurður Örn Karlsson, sérfræðingur hjá IFS ráðgjöf, segir að uppgjörið hafi verið mjög gott og að mörgu leyti umfram spár. „Þetta kom skemmtilega á óvart, enda var EBITDA framlegðin mun betri en við höfðum spáð, þótt tekjur hefðu ekki aukist eins mikið og við gerðum ráð fyrir. Mun betri loðnuvertíð skiptir verulegu máli, en fleiri þættir höfðu þarna áhrif.“

Nánar er fjallað um málið Kauphallarblaðinu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .