Að sögn Friðriks Halldórssonar, framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs hjá KB banka, hafa viðbrögð við nýjum húsnæðislánum bankans verið mjög jákvæð það sem af er degi. "Það hefur verið gífurlega mikið hringt og almennt má segja að viðbrögð fólks séu jákvæð. Margir segja að nú sé loksins eitthvað spennandi að gerast."

Friðrik sagði að engar tölur lægju fyrir um áhuga fólks en þeir hjá bankanum yrðu varir við mikla jákvæðni og spenning hjá fólki. Mikið væri hringt inn til að spá og spekulera og þá bæði fólk sem væri að standa í fasteignaviðskiptum og einnig fólk sem hafði áhuga á þvía ð ráðast í skuldbreytingar. "Það má segja að stemmningin í kringum þetta hafi verið óvenju jákvæð sem hefur smitað út til starfsfólksins. Við erum í skýunum yfir viðtökunum," sagði Friðrik.