„Þetta er mjög kostnaðarsamur samningur fyrir atvinnulífið. Miklar hækkanir, sérstaklega á lægstu launin,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), í samtali við Morgunblaðið um kjarasamninga VR, Flóabandalagsins, LÍV og Stéttarfélags Vesturlands við SA.

Viðræður félaganna við SA virtust á lokastigi í gærkvöldi og er stefnt að undirritun samninganna eftir hádegi í dag. Samninganefndir fengu kynningu á aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir gerð kjarasamninga síðdegis í gær, en þær felast einkum í lækkun tekjuskatts einstaklinga og aðgerðum í húsnæðismálum.

Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, segir í samtali við Morgunblaðið að skattatillögur ríkisstjórnarinnar nýtist millitekjuhópum. Láglaunahópar fengju miklar leiðréttingar með hækkun launataxta og hækkun lágmarkslauna. „Það er hægt að una við þetta útspil,“ segir hún.