Það er mjög líklegt að útlánsvextir íbúðalána Íbúðalánasjóðs (ÍLS) verði hækkaðir í kjölfar næsta útboðs sjóðsins sem fram fer á þessum ársfjórðungi. Þetta segir Jóhann G. Jóhannsson, sviðstjóri áhættu- og fjárstýringarsviðs sjóðsins í Viðtali við Viðskiptablaðið í dag. Landsbankinn tilkynnti fyrir helgi um hækkun útlánsvaxta sinna úr 4,15% í 4,45% en hvorki Íslandsbanki né KB banki hafa hækkað sín vaxtakjör sem eru 4,15%. Ef þeir hækka ekki sína vexti er ljóst að þeir munu bjóða betri kjör en ÍLS, a.m.k. til skamms tíma segir í Viðskiptablaðinu.

Jóhann sagði sjóðinn, skv. útgefinni útgáfuáætlun, ætla sér að sækja rúma 10 milljarða króna út á markaðinn á þessum ársfjórðungi og eins og ávöxtunarkrafan er á markaðnum í dag yrðu útlánsvextir sjóðsins eftir útboðið frá 4,7% og upp í 4,9%. Það yrði því nokkur hækkun frá þeim 4,15% vöxtum sem sjóðurinn er að bjóða í dag. Samkvæmt lögum þá má Íbúðalánasjóður ákvarða vexti með tvennum hætti. Annars vegar með útboðum á íbúðabréfum með 0,60% álagi, eins og tíðkast hefur, en einnig með vegnum fjármagnskostnaði uppgreiddra lána sjóðsins að viðbættu vaxtaálagi.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.