Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir að hópmálsókn gegn bílasölunni Heklu komi mjög vel til greina. Ástæðan er sú að nærri fjögur þúsund bílar frá Volkswagen eru með svindlbúnað hér á landi og segir Runólfur að tryggja verði skaðleysi neytenda. RÚV greinir frá .

Samkvæmt yfirlýsingu frá Heklu, sem er umboðsaðili Volkswagen á Íslandi, eru 3.647 bílar frá framleiðandanum með svindlbúnað hér í landi. Flestir þeirra eru Skoda, eða 1.854 talsins. 1.129 eru Volkswagen fólksbílar, 348 atvinnubílar og 316 Audi bílar. Í yfirlýsingunni er almenningur beðinn afsökunar á því að Volkswagen hafi misnotað traust hans.

Svindlbúnaðurinn er þannig gerður að í ákveðnum bifreiðum frá framleiðandanum er hugbúnaður sem slekkur á mengunarvarnarkerfi sínu nema þegar hann er mengunarprófaður. Má finna hugbúnaðinn í 11 milljónum bifreiða með ákveðinni tegund dísilvéla um heim allan.

Runólfur segir málið vera gríðarlega alvarlegt og að FÍB ætli að fylgjast grannt með gangi mála.

,,Það er meðal annars það að hugsanlega hafa verið vangreidd gjöld af þessum bílum og skattayfirvöld í nágrannaríkjunum hafa boðað það að þau muni sækja viðkomandi umboðsaðila til saka varðandi það að greiða vangreidd gjöld. Það hefur ekki komið nein yfirlýsing frá íslenskum stjórnvöldum, þannig að við vitum í sjálfu sér ekki hver staðan er varðandi þau mál. Úrlausnin á að koma framí október segja þeir Heklumenn, frá Volkswagen í Þýskalandi. Hver hún verður vitum við ekki, en það eru meðal annars ýmsar spurningar sem brenna á okkur og við höfum sent Heklu erindi varðandi það hvort það verði tryggt að þetta muni ekki hafa áhrif á eyðslu bifreiðanna, afl bifreiðanna, viðhald og svo framvegis," er haft eftir Runólfi á vef RÚV .

,,Þannig að það eru margar spurningar sem á eftir að svara. Síðan eru náttúrlega framtíðarmál eins og hvort þetta muni draga úr endursöluverði og söluhæfni þessara bifreiða til framtíðar og síðan erum við í raun bara að krefja Heklu um svör varðandi hvernig þeir muni tryggja skaðleysi þeirra neytenda sem eiga umræddar bifreiðar, þarna hátt í 4000 bíla sem eru á markaði hér."

Bætti hann því við að hópmálsókn kæmi vel til greina.