Frá því að Atlantic Petroleum var skráð í Kauphöll Íslands um mitt síðasta ár hefur veltan með hlutabréf í félaginu verið lítil, segir greiningardeild Landsbankans.

?Síðastliðna tólf mánuði er veltuhraði hlutabréfa félagsins um 31%, en til samanburðar er meðalveltuhraði hlutabréfa allra félaga í Kauphöllinni á sama tímabili tæp 70%," segir greiningardeildin.

Atlantic Petroleum hefur tekið formlega ákvörðun um tvíhliða skráningu. Félagið mun einnig verða skráð í kauphöllina í Kaupmannahöfn, sem er í eigu samnorrænu kauphallarsamstæðunnar OMX.

Félagið hefur hækkað um 30,9% frá áramótum og skipar þriðja sætið yfir þau félög sem hækkað hafa hvað mest á íslenska markaðinum. Tryggingamiðstöðin (40,5%) og Grandi (33,2%) státa af meiri ávöxtun á tímabilinu.