Gengi nær allra félaga hækkaði á aðalmarkaði Nasdaq Iceland í dag. Úrvalsvísitalan OMXI8 hækkaði um 1,17% á einum degi og stóð í 1.466,33 stigum við lokun markaða. Úrvalsvísitalan hefur þá hækkað um 11,85% frá áramótum, þar af um 2,8% frá því á mánudag.

Velta á hlutabréfamarkaði nam 2.466.810.743 krónum í 188 viðskiptum og velta með skuldabréf nam 11.014.297.780 krónum í 103 viðskiptum.

Mest hækkun var með bréf Nýherja, eða um 8,23%. Veltan nam þó einungis 4.492.198 krónum í 5 viðskiptum. Næst mest hækkun var með bréf VÍS, sem hækkuðu um 3,68% í 15 viðskiptum, en veltan nam 298.415.000 krónum.

Einu félögin sem ekki hækkuðu voru Reginn, þar sem gengið stóð í stað, og Eik, þar sem lækkun nam 0,32%. Velta með bréf Eikar nam 79.863.557 í 10 viðskiptum.