Atvinnuleysi er þegar tekið að aukast hröðum skrefum hér á landi. Með fjármálakerfið í molum, nánast óvirkan gjaldeyrismarkað, hátt vaxtastig og mikla verðbólgu eru fyrirtæki landsins í kröggum. Mörg eru þegar farin á hausinn og flest önnur þurfa nú að hagræða umtalsvert í rekstri til þess að fara ekki sömu leið.

Óhjákvæmilegt er því að til uppsagna komi og eins og fréttir síðustu daga bera með sér er sú þróun hafin af fullum krafti. Á síðustu vikum hafa 50-70 einstaklingar skráð sig daglega á atvinnuleysisskrá Vinnumálastofnunar á höfðuborgarsvæðinu einu og aðrir 30-40 á landsbyggðinni. Í lok síðustu viku, rétt fyrir mánaðamót, bárust Vinnumálastofnun síðan upplýsingar um hópuppsagnir sem ná til ríflega 2.000 einstaklinga og munu þeir því hætta störfum einhvern tíma á næstu þremur mánuðum.

Þessi töf kemur til vegna uppsagnarákvæða starfsmanna og hafa því margir atvinnurekendur væntanlega tilkynnt þessar uppsagnir með þá von í brjósti að þeir geti dregið þær til baka ef staða fyrirtækjanna batnar á næstu mánuðum.

Ef hlutlaust er horft á málið er þó lítil ástæða til að ætla að slíkt verði almennt raunin og því má gera ráð fyrir mikilli aukningu atvinnuleysis þegar uppsagnarfrestirnir renna út.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .