Þrátt fyrir að ný stjórn hafi verið kosin á átakalausum aðalfundi Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum í síðustu viku, setja eldri deilumál hluthafa ennþá mark sitt á félagið. Um þessar mundir er beðið niðurstöðu dómstóla um ágreininginn sem spratt upp á aðalfundi félagsins í fyrra auk þess sem atvinnuvegaráðherra hafnaði nýverið enn einni beiðni minnihluta stjórnarinnar um skipun rannsóknarmanna. Í viðtölum við Viðskiptablaðið að undanförnu hefur Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, ekki hikað við að lýsa þeirri skoðun sinni að átök innan hluthafahópsins séu öll runnin undan rifjum Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims hf. Það vekur því óneitanlega athygli að Guðmundur hefur nú tekið sæti í stjórninni og ýmsir sem gætu spurt hvort vinnufriðs sé að vænta á komandi misserum.

Enn deilt um aðalfund fyrir árið 2015

Þrátt fyrir að ný stjórn hafi nú verið kosin markar það á engan hátt enda deilunnar um stjórnarkjör síðasta árs. „Deilan endaði fyrir dómstólum og var málið flutt fyrir héraðsdómi 31. mars síðastliðinn svo dómsniðurstöðu er því að vænta einhvern tímann í apríl eða maí. Nú vill svo skemmtilega til að stjórnin er eins samsett og hún var fyrir upphaf deilunnar en Guðmundur Kristjánsson var í stjórn fram að aðalfundi fyrir árið 2015. Nú er hann kominn aftur í stjórn eftir síðasta aðalfund á sama tíma og hann rekur mál fyrir dómstólum um lögmæti stjórnarinnar sem var kosinn á þar síðasta aðalfundi,“ segir Sigurgeir.

Að sögn Sigurgeirs snýr kröfugerð málsins að því að stjórnin sem þá var kjörin sé ólögmæt vegna þess að kosið hafi verið tvisvar og telja stefnendur að skera hefði átt úr um kosningu um stjórnarmenn með hlutkesti. „Kosningunni var ekki lokið áður en hún var trufluð af af fulltrúum Guðmundar Kristjánssonar og síðar á fundinum var síðan kosið aftur til að fá skýra niðurstöðu. Svo var haldinn annar hluthafafundur í lok ágúst þar sem átti að kjósa á nýjan leik en þá var sjálfkjörið í stjórnina. Þetta er auðvitað mjög sérkennileg staða og það verður gaman að sjá hver dómsniðurstaðan verður,“ segir Sigurgeir.

Nánar er fjallað um málið í Vinnslustöðinni. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Viðbót: Guðmundur Kristjánsson hefur sent frá sér tilkynningu þar sem hann mótmælir því sem fram kemur í viðtalinu. Tilkynninguna í heild sinni má lesa hér.