Framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins segir þátttöku í atkvæðagreiðslu félagsmanna um verkfall hafa tekið kipp eftir fréttir af hækkun stjórnarlauna í HB Granda. Sérfræðingur í vinnumarkaðsfræði telur vinnuveitendur og stjórnendur eiga að ganga á undan með góðu fordæmi. Hækkun stjórnarlaunanna hafi verið taktlaust útspil.

Niðurstaða í atkvæðagreiðslu Starfsgreinasambandsins um boðun verkfalls á að liggja fyrir seint annað kvöld. Í samtali við Vísi sagðist Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, gera ráð fyrir að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar yrði afgerandi. Félagsmönnum misbjóði gjörsamlega hækkun stjórnarlauna í HB Granda, en stór hluti félagsmanna Starfsgreinasambandsins starfar í sjávarútvegi. Ekki hefur verið boðað til nýs fundar í viðræðum SGS og Samtaka atvinnulífsins.

Ríkið komi að lausn deilunnar

Forsætisráðherra sagði í gær að ekki væri tímabært að ríkið komi með beinum hætti að lausn deilunnar á vinnumarkaði. Í viðtali í þættinum Sprengisandi í morgun sagðist Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, sérfræðingur í vinnumarkaðsfræði, hins vegar búast við því að ríkið komi á einhverjum tímapunkti að lausn deilunnar.

Undanfarin 50 ár hafi þróast samráðskerfi á vinnumarkaði sem fæli það í sér að samhliða kjarasamningum gripi ríkið til samfélagslegra umbóta á sviðum á borð við lífeyrismál, húsnæðismál og almannatryggingar. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar á borð við styttingu bótatímabils atvinnuleysistrygginga og hækkun virðisaukaskatts á matvæli hafi ekki komið á góðum tíma.

Taktlaust útspil

Gylfi sagði að það skipti miklu máli að vinnuveitendur og stjórnendur sýni ábyrgð. „Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina, kannski frekar í útlöndum að þegar þarf til dæmis að grípa til einhverra niðurskurðaraðgerða þá hafa stjórnendur gengið á undan með góðu fordæmi, lagt niður einhver hlunnindi,“ sagði Gylfi.

Hann sagði það skipta miklu máli að vinnuveitendur og stjórnendur komi ekki með útspil á borð við hækkun stjórnarlauna í HB Granda á erfiðum stundum í kjaraviðræðum. „Auðvitað eiga menn að ganga á undan með góðu fordæmi. Þetta hleypir illu blóði í verkalýðshreyfinguna og er mjög taktlaust útspil á þessum tíma,“ sagði Gylfi um hækkun stjórnarlaunanna.