Mjólka hefur fest kaup á matvælafyrirtækinu Vogabæ og hefur mjólkurstöð Mjólku verið flutt í verksmiðjuhúsnæði Vogabæjar við Eyrartröð 2a í Hafnarfirði. Vogabær og Mjólka munu halda áfram að framleiða undir eigin merkjum.  Kaupin á Vogabæ fela í sér umtalsverð samlegðaráhrif í framleiðslu og dreifingu á afurðum beggja fyrirtækja. Vogabær er leiðandi í framleiðslu á sósum og ídýfum hér á landi og selur framleiðslu sína undir merkjum Vogabæjar og E. Finnsson.  Fráfarandi eigendur og stjórnendur Vogabæjar munu starfa áfram hjá fyrirtækinu.

Í tilkynningu vegna kaupanna segir að „auk þeirra augljósu samlegðaráhrifa sem felast í að sameina dreifingu, skrifstofuhald og stjórnun þessara tveggja fyrirtækja þá leysum við um leið mjög brýnan húsnæðisvanda sem hefur verið að há eðlilegum vexti Mjólku undanfarna mánuði.  Mjólkurstöðin rúmast vel í verksmiðjuhúsnæði Vogabæjar án þess að þrengt verði um of að þeirri starfsemi sem fyrir er,“ segir Ólafur M. Magnússon framkvæmdastjóri Mjólku.

Stefnt er að því að ljúka flutningi mjólkurstöðvar Mjólku í Hafnarfjörð á næstu vikum og í kjölfarið mun Mjólka kynna nýjar og metnaðarfulla framleiðsluvörur sem hafa verið í þróun undanfarin misseri en sem ekki hefur verið hægt að hefja framleiðslu á í núverandi húsnæði. Samhliða kaupunum á Vogabær er lokið fjárhagslegri endurskipulagningu á Mjólku og er fyrirtækið nú vel í stakk búið til að takast á við áframhaldandi samkeppni í mjólkuriðnaði. „Það er ljóst að þær aðgerðir sem nú hefur verið ráðist í styrkja verulega þær stoðir sem Mjólka hvílir á og eru enn einn áfanginn í áframhaldandi uppbyggingu fyrirtækisins,“ segir Ólafur M. Magnússon framkvæmdastjóri Mjólku.

Fyrirtækið Mjólka ehf. var stofnað í febrúar árið 2005 af fjölskyldunni að Eyjum II í Kjós og aðilum henni tengdum. Síðar gerðist Vífilfell hluthafi í fyrirtækinu. Mjólka rekur umfangsmikla mjólkurframleiðslu í eigin búi að Eyjum II í Kjós og einnig mjólkurstöð sem sérhæfir sig í framleiðslu á ostum og öðrum mjólkurafurðum fyrir innanlandsmarkað. Mjólka er eina fyrirtækið í íslenskum mjólkuriðnaði sem starfar utan hins hefðbundna greiðslumarkskerfis landbúnaðarins og nýtur því ekki framleiðslustyrkja frá hinu opinbera. Matvælaframleiðsla Vogabæjar hófst fyrir alvöru í febrúar 1985 og var fyrstu árin í Vogum á Vatnsleysuströnd.  Árið 1989 keypti fyrirtækið rekstur E. Finnson sem einnig var með fjölbreytta sósuframleiðslu og í október 2001 var núverandi verksmiðjuhúsnæði við Eyrartröð 2 í Hafnarfirði tekið í notkun.  Verksmiðjuhúsnæðið er 1300m2  að stærð og sérstaklega byggt og hannað samkvæmt ströngustu kröfum GÁMES kerfisins.