Mjólka hefur sagt upp öllu starfsfólki sínu í framleiðslu, en fyrirtækið sem upphaflega var sett á fót til að vera í samkeppni við samvinnufélögin í mjólkuriðnaði, var keypt 2009 af Kaupfélagi Skagfirðinga (KS) sem á 10% hlut í Mjólkursamsölunni, MS.

Flyst vinnsla fyrirtækisins í mjólkurframleiðslu KS á Sauðárkróki og í afurðarstöð MS í Búðardal. Fengu starfsmenn Mjólku sem hefur haft framleiðslu sína í Hafnarfirði uppsagnarbréf þessa efnis í apríl. Starfsmenn á lager og markaðsmálum halda sínu starfi í einhverjum tilvikum.

Samkeppni þrátt fyrir náin tengsl

Jafnframt með kaupunum á Mjólku fylgdi sósuframleiðandinn Vogabær sem framleiðir Voga ídýfur og E. Finnson sósur, en Mjólka hafði keypt fyrirtækið árið áður. Í frétt á Vísir.is um málið fullyrðir framkvæmdastjóri Mjólku að fyrirtækið sé í samkeppni við MS þrátt fyrir náin tengsl þess við KS.