Stjórn Mjólku stefnir að því að flytja afurðastöð félagsins úr Reykjavík í Borgarnes, segir í fréttatilkynningu. Rætt hefur verið við bæjaryfirvöld í Borgarbyggð um lóð undir nýja afurðastöð í bænum og hefur þeirri málaleitan verið vel tekið, að sögn Ólafs M. Magnússonar framkvæmdastjóra Mjólku.

Í tilkynningu Mjólku segir að megin ástæða þess að fyrirtækið hyggur nú á byggingu nýrrar afurðastöðvar er að núverandi húsnæði er orðið of lítið fyrir sívaxandi starfsemi félagsins. Þar við bætist að fleiri mjólkurbændur á Vesturlandi leggja nú afurðir sínar inn hjá Mjólku. Því er talið hagkvæmara að ný afurðastöð rísi í Borgarnesi sem er nær megin mjólkur-söfnunarsvæði félagsins.

?Þetta þýðir í raun að við erum að horfa á Vesturland, Húnavatnssýslu og Dalina sem okkar aðal mjólkurframleiðslusvæði þótt við séum að sjálfsögðu reiðubúnir að skoða önnur svæði líka? segir Ólafur.

Með ákvörðun um byggingu nýrrar afurðastöðvar segir Ólafur að tekin hafi verið sú stefna að halda áfram að stækka félagið og bæta við nýjum viðskiptavinum og þróa fleiri afurðir. Kókómjólk er nýjasta afurð Mjólku.

Ráðgert er að ný afurðastöð verði 2000 fermetrar að stærð og eru tvær lóðir í Borgarnesi helst taldar koma til greina. Sölu- og dreifingarstarfsemi Mjólku verður hins vegar áfram í Reykjavík.