Vesturmjólk í Borgarnesi var lýst gjaldþrota í héraðsdómi Vesturlands 4. febrúar síðastliðinn og hefur mjólkurbúið verið tekið til gjaldþrotaskipta. Skiptastjóri hefur verið skipaður yfir búið. Í Lögbirtingablaðinu í dag kallar hann eftir kröfum í búið.

Fjármagnið þurrkaðist upp

Mjólkurbúið Vesturmjólk var sett á laggirnar árið 2010 og setti fyrstu vörurnar á markað um mitt ár 2011 undir vöruheitinu Baula - beint úr sveitinni. Það framleiddi m.a. drykkjarvörur úr mjólk, jógúrt og sýrðum rjóma. Stofnendur voru þrír, þeir Jóhannes Kristinsson, sem átti fjárfestingarfélagið Fons með fjárfestinum Pálma Kristinssyni um nokkurra ára skeið, og kúabændurnir Bjarni Bæring Bjarnason og Axel Oddsson. Einn af skráðum eigendum Vesturmjólkur var félagið Norðurárdalur sem tengist bænum Þverholtum á Mýrum í Borgarfirði en þar er rekið eitt stærsta kúabú landsins.

Vesturmjólk hætti framleiðslu á vörum úr mjólk í janúar í fyrra og var þá fjórum starfsmönnum sagt upp. Gylfi Árnason, framkvæmdastjóri Vesturmjólkur, sagði í samtali við fréttablaðið Skessuhorn um það leyti að fyrirtækið eigi við fjárhagsvanda að stríða og vantaði 40 til 50 milljónir króna til að halda rekstrinum gangandi.

Í apríl í fyrra voru svo öll tæki og tól mjólkurbúsins auglýst til sölu, þar á meðal tankbíll, pökkunarvél og ýmislegt fleira sem tengist mjólkurgerð.