Mjólkurbúið Kú mótmælir harðlega ákvörðun verðlagsnefndar búvara sem fyrirtækið segir að hafi einhliða ákveðið óeðlilega hækkun á ógerilsneyddri hrámjólk til úrvinnslu  eða um 4%, á sama tíma og hækkun á afurðaverði til bænda hækki aðeins um 1,47 krónur eða 1,77%. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá mjólkurbúinu.

Í tilkynningunni segir að vegna ákvörðunar nefndarinnar, sem þar er reyndar kölluð verðlagsnefnd „Mjólkursamsölunnar“, þurfi smærri úrvinnsluaðilar að greiða 17,44% samkeppnisskatt til MS ofan á mjólkurverð. Þessari hækkun sé stefnt gegn samkeppni á mjólkurvörumarkaði og muni valda smærri fyrirtækjum sem starfi á markaðnum fjárhagslegu tjóni.

„KÚ hefur því ákveðið að kæra þessa ákvörðun verðlagsnefndar „Mjólkursamsölunnar“ til Samkeppniseftirlitsins þar sem hún gengur freklega gegn samkeppni á mjólkurvörumarkaði og er brot á samkeppnislögum þ.e 11.gr. sem varðar markaðs misnotkun. Hagsmunir neytenda eru með öllu bornir fyrir róða með þessari ákvörðun ekki síst þar sem mjólkurframleiðsla á Íslandi býr jafnframt við mikla tollvernd. Verðlagsnefnd „Mjólkursamsölunnar“ stefnir því leynt og ljóst að því tryggja að nýir aðilar geta ekki með nokkru móti keppt við MS vegna ofur „skattlagningar“ á hráefnið,“ segir í tilkynningunni.

Samkeppniseftirlitið fjársvelt

Segir jafnframt að framgangan sé sérstaklega ámælisverð þar sem MS hafi komið sér hjá því að taka ábyrgð á langvarandi og ítrekuðum brotum á samkeppnislögum með „lagatæknilegum klækjum og útúrsnúningum“. Með ákvörðuninni sé ljóst að MS sé í þeirri sérstöðu að geta lagt íþyngjandi skatt á samkeppnisaðila sína og njóti til þess blessunar stjórnvalda.

„Stjórnvöld hafa svo bitið hausinn af skömminni með því að fjársvelta Samkeppniseftirlitið og fleiri eftirlitstofnanir með þeim afleiðingum að þau geta illa eða mjög seint sinnt hlutverki sínu og lokið málum.  Þannig taki afgreiðsla kærumála lengri tíma en eðlilegt getur talist sem bitnar á hagsmunum neytenda og almennings. Nú er því brýna en nokkru sinni fyrr að niðurstöður fáist í margra ára kærumál sem eru til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu og snúa að alvarlegum og ítrekuðum brotum Mjólkursamsölunnar á samkeppnislögum,“ segir í tilkynningu mjólkurbúsins.