Mjólkurbúið KÚ hefur kært Mjólkursamsölunna (MS) fyrir ítrekuð brot á 10. og 11. grein samkeppnislaga frá í nóvember árið 2010 með því að krefja KÚ um hærra verð fyrir hrámjólk en aðra kaupendur. Kæran gegn Mjólkursamsölunni var lögð inn til Samkeppniseftirlitsins fyrr í dag en í framhaldinu verður lögð fram hjá lögreglu kæra á hendur forstjóra Mjólkursamsölunnar og stjórnarformanni. Í kærunni er þess krafist að Samkeppniseftirlitið stöðvi framgöngu MS þegar í stað og að stjórnendur og fyrirtækið sæti ábyrgð vegna brota sinna. Þá er þess krafist að Mjólkursamsalan endurgreiði KÚ oftekinn kostnað upp á 16 milljónir króna auk vaxta og annars kostnaðar sem hlotist hefur vegna viðskiptanna.

Í kærunni er jafnframt fullyrt að forstjóri MS hafi ekki þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir lagt fram fram trúverðug gögn sem styðja fullyrðingar hans í fjölmiðlum um að Mjólka beri annan kostnað sem ekki kemur fram á reikningum.

Í tilkynningu frá KÚ segir m.a. að MS hafi ætlað sér að hindra samkeppni á mjólkurvörumarkaði. Við brot sín hafi MS notið stuðnings og skjóls stjórnvalda í gegnum tíðina - og sömuleiðis nú. Kæran verður jafnframt send til Eftirlitsstofnunar EFTA ásamt kæru á hendur íslenskum stjórnvöldum vegna undanþágu ákvæða er undanskilja íslenskan mjólkuriðnað að hluta frá samkeppnislögum.

Í kærunni segir um málið að á reikningi sem stílaður er á Mjólku frá 6.mars 2012 kemur fram að Mjólka greiðir 77,69 krónur fyrir hvern líter af hrámjólk en á reikningi sem stílaður er á Mjólkurbúið KÚ þann 17.apríl 2012 kemur fram að Mjólkurbúið greiðir 90,74 krónur fyrir hvern líter af hrámjólk.  Mjólkurbúið KÚ greiðir því 13,05 króna  hærra verð fyrir hvern líter af hrámjólk eða 16,80% hærra verð en Mjólka greiðir.