Mjólkurframleiðsla í landinu dróst saman um 0,38 prósent á síðasta ári samanborið við árið á undan og nam tæpum 126 milljónum lítra. Sala mjólkurvara var þó góð á árinu og í raun meiri en vænta mátti miðað við erfitt efnahagsástand. Þegar skoðaðar eru sölutölur kemur í ljós að salan hefur færst milli tegunda, úr dýrari afurðum yfir í ódýrari. Þetta er meðal þess sem fram kom á aðalfundi Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) sem haldinn var þann 4. mars síðastliðinn.

Umreiknuð sala á próteingrunni jókst um 0,47 prósent og er þar aðallega um ýmsar skyrtegundir að ræða. Sé litið til umreiknaðrar sölu á fitugrunni jókst salan um 2,92 prósent, aðallega á rjóma og smjöri.

Í tilkynningu kemur fram að miklar verðsveiflur hafa einkennt erlenda markaði hin síðari ár og hækkaði til að mynda verð á undanrennudufti og smjöri mjög á seinni hluta ársins 2007. Verð hefur þó lækkað nokkuð síðan. Útflutningur á próteinhluta framleiðslunnar, aðallega skyrtegundum, dróst saman um 3,9 milljónir lítra og voru fluttar út um 7,8 milljónir lítra. Útflutningur á fituhlutanum, aðallega smjöri, nam um 12,7 milljónum lítra á síðasta ári, sem er verulega minna en 2008.

Hagræðing í mjólkuriðnaði

Margvíslegar hagræðingaraðgerðir í málefnum mjólkuriðnaðarins, sem skipulagðar voru 2006 og hófust formlega með stofnun Mjólkursamsölunnar ehf. 1. janúar 2007, eru farnar að bera árangur með skila betri afkomu í greininni.  Áfram verður unnið að hagræðingu innan mjólkuriðnaðarins segir í tilkynningu.

Stjórn og framkvæmdastjóri SAM

Guðna Ágústsson, fyrrveradi alþingismaður og ráðherra, var nýverið ráðinn í starf framkvæmdastjóra SAM. Á aðalfundi SAM þann 4. mars sl. voru eftirtaldir kosnir í stjórn: Rögnvaldur Ólafson formaður, Erlingu Teitsson varaformaður, Jón Axel Pétursson ritari, Egill Sigurðsson, Einar Sigurðsson, Sigurður Loftsson og Pálmi Vilhjálmsson meðstjórnendur.

SAM eru hagsmunasamtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Tilgangur þeirra er að gæta hagsmuna afurðastöðvanna í landinu og stuðla að sem hagkvæmustum rekstri mjólkuriðnaðarins, m.a. með því að framleiðendur og afurðastöðvar nýti sem best tiltæka markaði hverju sinni, innanlands sem utan. Allar afurðatöðvar sem taka við mjólk frá framleiðendum eiga rétt á aðild að samtökunum. Á vegum SAM starfar Markaðsnefnd mjólkuriðnaðarins sem hefur með höndum markaðsfærslu á nýmjólk, léttmjólk, undanrennu, súrmjólk, rjóma, skyri og mysu. SAM eru aðili að alþjóðlegu mjólkuriðnaðarsamtökunum International Dairy Federation (IDF).