Þó mjólk og ostar séu það sem flestir þekkja þá er margt annað framleitt hjá Mjólkursamsölunni. Sérstaklega hefur MS Akureyri getið sér gott orð fyrir skapandi nýtingu á afgangsvörum og hefur Kristín Halldórsdóttir, sem nýverið tók við sem mjólkurbússtjóri, átt stóran þátt í þeirri vöruþróun.

„Það leggjast til á milli 25 og 26 milljónir lítra af mysu á hverju ári hjá MS Akureyri. Áður fyrr fór þetta annað hvort í dýrafóður eða í hafið með tilheyrandi mengun. Við viljum vinna á umhverfisvænum nótum og leituðum því leiða til að nýta þetta betur. Við fjárfestum í búnaði til að sía mysuna og náum þannig mysupróteinunum þar úr. Við höfum svo verið að nota þau áfram í aðrar vörur. Til dæmis í ost og svo í Hleðslu og skyrdrykkina. Þetta hefur gefið góða raun,“ segir Kristín.

Nú heyrir maður fréttir af því að þið ætlið að fara að brugga vín?

„Heyrðu já, það er hluti af mysunni. Eins og ég sagði áðan þá notum við mysupróteinin í ost, Hleðslu og fleira. Þá er mjólkursykurinn sem er í mysunni eftir. Eitthvað þurfum við að gera við hann. Við höfum áður selt hann í dýrafóður en okkur langar til að skapa úr þessu meiri verðmæti. Við teljum að þarna séu ýmsir möguleikar. Í eldsneytisframleiðslu og iðnaðarspíra eða jafnvel bara í vínframleiðslu. Þetta er ennþá bara á teikniborðinu en við höfum háleit markmið.“

Hver verða þá næstu skref ef allt gengur að óskum?

„Ef við förum í eldsneytisframleiðslu þá getum við til dæmis notað þetta sem eldsneyti á mjólkurbílana okkar. Við gætum líka selt iðnaðarspíra í aðra matvælaframleiðslu og jafnvel búið til einhverja rjómalíkjöra, þá í líkingu við Bailey´s. Þetta er allt saman hægt og þetta eru spennandi verkefni. En það þarf að vega og meta marga þætti og auðvitað auðvelt að láta sig dreyma. En við erum allavega að vinna í þessu núna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.