Mjókursamsalan og finnskir samstarfsaðilar hennar munu á mánudag leggja fram lögbannskröfu í Finnlandi um að sænski mjólkurrisinn Arla fái ekki að nota orðið skyr um framleiðslu sína þar í landi. Morgunblaðið greinir frá þessu og hefur eftir Jóni Axel Péturssyni, framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs MS, að skyr sé skrásett vörumerki í Finnlandi.

Að sögn Jóns hefur Arla varið sex milljörðum króna í markaðssetningu á skyri í Evrópu það sem af er ári. Hann segir MS ekki geta keppt við Arla í markaðssetningu og leggi fyrirtækið því áherslu á gæðin. Fyrirtækið mun nota innflutningskvóta Evrópusambandsins í að flytja út skyr til Bretlands og Írlands, og verður byrjað að selja skyr frá MS í þessum löndum í haust.

Verðmæti skyrsölu MS erlendis er um 10 milljarðar króna. Þar af eru um 6,5 milljarðar í formi leyfistekna, en rúmir þrír milljarðar vegna sölu MS á eigin framleiðslu.