Í upphafi árs 2013 hóf Samkeppniseftirlitið rannsókn á ætluðum brotum Mjólkursamsölunnar ehf. (MS) á banni 11. gr. samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Tildrög rannsóknarinnar voru að Mjólkurbúið Kú ehf. (Mjólkurbúið) kvartaði yfir því að þurfa að greiða MS 17% hærra verð fyrir óunna mjólk til vinnslu, sk. hrámjólk, en keppinautar Mjólkurbúsins sem eru tengdir MS þyrftu að greiða.

Mjólkurbúið er í eigu Ólafs Magnússonar o.fl., en hann stofnaði einnig fyrirtækið Mjólku ehf. sem hóf samkeppni við MS árið 2005. Í lok árs 2009 keypti Kaupfélag Skagfirðinga (KS) Mjólku ehf. og hefur rekið hana síðan. Í málinu var einnig tekinn til skoðunar sambærilegur verðmunur á hrámjólk frá MS, annars vegar til Mjólku á meðan fyrirtækið var í eigu Ólafs Magnússonar o.fl., og hins vegar eftir að það hafði verið selt til KS. Mjólkurbúið taldi að með þessum mun á hráefnisverði til vinnsluaðila væri MS að misnota markaðsráðandi stöðu sína gagnvart minni keppinautum.

Rannsókn málsins leiddi í ljós að MS mismunaði Mjólkurbúinu samkvæmt Samkeppniseftirlitinu og áður Mjólku á meðan hún var í eigu fyrri eigenda, með því að selja fyrirtækjunum ógerilseydda hrámjólk á allt að 17% hærra verði en gilti gagnvart tengdum aðilum, þ.e. KS og síðar Mjólku þegar hún hafði verið seld KS. Að mati Samkeppniseftirlitsins var þessi mismunun í hráefnisverði til þess fallin að veikja Mjólku sem keppinaut MS og tengdra félaga og stuðla að sölu félagsins til KS. Eftir að Mjólka komst í eigu KS fékk félagið hrámjólk á allt öðru og lægra verði en áður frá MS, en þegar félagið var keppinautur MS og KS á mjólkurvörumarkaði.

MS bar því við að breytingarnar á búvörulögum 2004 hefðu þau áhrif að umrædd verðmismunun gæti ekki falið í sér brot á samkeppnislögum. Samkeppniseftirlitið telur hins vegar að það hafi ekki verið tilgangur löggjafans að markaðsráðandi afurðastöðvar í mjólkuriðnaði væru undanþegnar banni samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Gildi því sömu reglur um MS að þessu leyti og gilda gagnvart markaðsráðandi fyrirtækjum í öðrum atvinnugreinum.

Samkeppniseftirlitið telur MS hafi með alvarlegum hætti brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga, en ákvæðið leggur m.a. bann við því að markaðsráðandi fyrirtæki mismuni viðskiptavinum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og samkeppnisstaða þeirra þannig veikt.

Telur Samkeppniseftirlitið hæfilegt að leggja 370 milljónir króna kr. í sekt á MS vegna þessa brots.