Verð á mjöli er mjög hátt í sögulegu ljósi og var í júní rúmum 52,1% hærra en í júní í fyrra að því er kemur fram í Morgunkorni Glitnis. Mjölverðið í erlendri mynt hækkaði um 23% í júní frá mánuðinum á undan. Í íslenskum krónum er mjölverðið nú 75,5% hærra en í fyrra.

Verð á öðrum sjávarafurðum hefur einnig hækkað verulega. Af einstökum afurðaflokkum lækkaði verð á sjófrystum botnfiskafurðum um 3% í júní mælt í erlendri mynt. Sjófrystar botnfiskafurðir eru nú 5% verðmeiri en í júní í fyrra. Landfrystar botnfiskafurðir lækkuðu einnig í verði, eða um 2,7% í júní og er verð þeirra 5,5% hærra en fyrir ári síðan.