Fyrsta umferð forsetakosninganna í Frakklandi verður 23. apríl næstkomandi og nú er staðan þannig að fjórir frambjóðendur eru nálægt því að vera jafnir í nýrri skoðanakönnun. Könnunin sem var framkvæmd af Elabe var gerð opinber í gær.

Samkvæmt könnuninni er miðjuframbjóðandinn Emmanuel Macron með 24 prósent fylgi, Marine Le Pen er með 23 prósent fylgi og stendur fylgi hægrimannsins Francois Fillon í 21 prósent.

Hins vegar hefur vinstrimaðurinn Jean-Luc Melenchon bætt talsverðu við sig á síðustu misserum og er fylgi hans nú 18 prósent. Nálega þriðjungur kjósenda er enn óákveðinn og því virðist allt hnífjafnt í forsetakosningunum.

Haft er eftir Edouard Lecerf, sem er greiningaraðili hjá Kantar Sofres í Frakklandi, í frétt Bloomberg um málið er að frambjóðendurnir eru steinrunnir. „Vandamálið fyrir frambjóðendurna fjóra er að sækja nýja kjósendur án þess að einangra sinn stuðningshóp. Franskir kjósendur eru eins og fiskar, eða öllu heldur hálir eins og álar.“