Örfáir dagar eru þar til Skotar ganga í kjörklefa og ákveða hvort þeir vilji verða sjálfstæð þjóð. Atkvæðagreiðslan fer fram á fimmtudag í næstu viku. Á seinustu vikum hafa sjálfstæðissinnar sótt í sig veðrið þó að sambandssinnar mælist með nauma yfirburði eins og stendur. Þó er ljóst að brugðið getur til beggja vona.

Um 35.000 sjálfboðaliðar úr sjálfstæðishreyfingunni hyggjast nýta seinustu daga í að dreifa bæklingum til að reyna að vinna málstaðnum fylgi. Ráðamenn í Bretlandi hafa varað Skota við því að myndu þeir lýsa yfir sjálfstæði gæti það haft mjög neikvæðar fjárhagslegar afleiðingar fyrir Skota, og hefur Ed Milliband til að mynda haldið því fram að Skotar þyrftu sjálfir að leggja til milljarð sterlingspunda til að viðhalda þjónustustigi í heilbrigðiskerfinu.

Gengi punds gagnvart bandaríkjadal hefur lækkað talsvert á seinustu vikum eftir að ljóst varð af skoðanakönnunum að brugðið gæti til beggja vona með niðurstöður atkvæðagreiðslunnar.