Bandaríski fjárfestirinn Hilco sem keypti tískukeðjuna MK One af Baugi fyrir tæpum þremur vikum hefur sett fyrirtækið í gjaldþrotameðferð að því er Financial Times greinir frá í dag.

Kaupverðið var ekki gefið upp á sínum tíma en heimildir breskra fjölmiðla fullyrtu að afar lítið fé hefði skipt um eigendur þegar gengið var frá sölunni. Deloitte hafði milligöngu um söluna fyrir hönd Baugs og nú hefur Hilco ráðið fyrirtækið til að undirbúa gjaldþrotameðferð. MK One rekur 172 verslanir og hefur um 2500 manns í vinnu.

Tapaði 17 milljónum punda 2006

Hilco keypti fyrir nokkrum misserum verslanakeðjuna Allders og setti hana í gjaldþrotameðferð áður en eignir hennar voru seldar öðrum smásölum. Á meðan kaupenda er leitað verður rekstrinum haldið áfram, að sögn Lee Manning, sem stýrir undirbúningi gjaldþrotameðferðarinnar fyrir hönd Deloitte.

Baugur keypti MK One á 44 milljónir punda haustið 2004 en þá skuldaði félagið 11 milljónir punda. MK One tapaði tæplega 17 milljónum punda árið 2006, en rekstrartölur frá því í fyrra hafa ekki verið gefnar upp.

FT vitnar í yfirlýsingu frá Baugi frá því í gær þar sem segir að Baugur hafi reynt að sýna öllum hlutaðeigandi tillitsemi þegar MK One var selt og að tilboð Hilco hafi verið það besta sem hægt væri að finna, með tilliti til hagsmuna hluthafa. Fyrir utan Baug voru helstu hluthafar MK One, Landsbankinn, Berclays og helstu stjórnendur fyrirtækisins.