FL Group hefur yfirtekið fragtflugningafélögin Bláfugl og Flugflutninga. Því hefur greiningardeild Landsbankans bætt áætluðum tekjum af þeirri starfsemi inn í verðmat sitt á samstæðunni og endurskoðað væntingar sínar til rekstrarins í heild.

Sem stendur er markaðsvirði FL Group um 38 ma.kr. í Kauphöll Íslands. Félagið á rúm 13% hlut í lágfargjaldaflugfélaginu easyJet sem skráð er í Kauphöllinni í London. Markaðsvirði hlutarins er um 17,2 ma.kr., eða um 45% af heildarmarkaðsvirði FL Group.

Miðað við 14,3% nafnávöxtunarkröfu og 4,6% framtíðarvöxt er verðmæti FL Group metið 36,9 ma.kr. Þetta gefur svo verðmatsgengið 14,6 á hlut miðað við 2.531 m.kr. útistandandi hlutafé. Lokagengi félagsins á markaði þann 13/09/2005 var 14,9 og er því mælt með því að fjárfestar haldi bréfum sínum í FL Group og yfirvogi þau í vel dreifðu eignasafni.

Byggt á Vegvísi Landsbankans.