Greiningardeild Kaupþings hefur gefið út nýtt verðmat á Exista. Núvirt gengi miðað við umframarðsemismat þeirra er 34,1 krónur á hlut sem er um 5% yfir daglokagengi í gær. Tólf mánaða markgengi þeirra miðað við 11,5% ávöxtunarkröfu er 38 krónur á hlut sem er um 17,2% yfir dagslokagengi í gær. Greiningardeild Kaupþings mælir því með kaupum í Exista.

Á tiltölulega skömmum tíma hefur Exista náð að skapa sér sterka stöðu sem öflugt fjármálaþjónustufélag. Félagið er stærsti hluthafi í tveimur af tíu verðmætustu fjármálafyrirtækjunum á Norðurlöndunum, Sampo og Kaupþingi. Bæði félög hafa vaxið hratt á síðustu árum og skilað góðri afkomu.Standa væntingar til þess að þau muni gera svo áfram og vera í forystu væntanlegrar samþjöppunar fjármálafyrirtækja á Norðurlöndunum og í Norður-Evrópu segir í verðmati greiningardeildarinnar.


Fjárfestingarstarfsemi Exista vegur þungt í starfsemi og afkomu félagsins og teljur greiningardeildin að horfur á fjármálamörkuðum til lengri tíma séu góðar þrátt fyrir ókyrrð á mörkuðum síðustu vikurnar. Þeir telja sjóðstreymi undirliggjandi eigna félagsins vera mikinn styrk fyrir félagið og tryggja félaginu hagstæð kjör við fjármögnun til bæði skamms og lengri tíma, ekki síst þegar fjármagnsmarkaðir þorna upp líkt og gerst hefur síðustu vikur í framhaldi af undirmálslánakrísunni í Bandaríkjunum sem leitt hefur af sér lausafjárþurrð sem nú er að ganga til baka að einhverju leyti.