Greiningardeild KB banka hefur unnið nýtt verðmat á Íslandsbanka í kjölfar níu mánaða uppgjörs félagsins. Niðurstaðan gefur 214,8 milljarða króna virði bankans og verðmatsgengið 16,8 krónur á hlut, miðað við 12.783 milljóna útistandandi hlutafé í lok september. Greiningardeild KB banka mælir því með kaupum á hlutabréfum Íslandsbanka og heldur óbreyttri ráðgjöf til skamms tíma um yfirvogun á hlutabréfum bankans í dreifðum eignasöfnum sem taka mið af íslenska markaðinum.

Mikið breyttar forsendur liggja að baki þessu nýja mati greiningardeildar KB banka frá þeim forsendum sem gerðar voru í síðasta verðmati þeirra á bankanum í lok desember 2004. Má þar m.a. nefna breyttar forsendur vegna sölunnar á 66,6% hlutafjár í Sjóvá og þær breytingar á fjárhagslegum markmiðum bankans sem nýlega voru kynntar samhliða níu mánaða uppgjöri. Í nýjum markmiðum felst einkum breytt stefna til aukins vaxtar á erlendum mörkuðum, eins og þegar hefur komið fram með nýlegum yfirtökum í Noregi.

"Nýtt verðmat okkar upp á 16,8 krónur á hlut er 7,0% hærra er lokagengið 15,70 á hlutabréfum bankans í Kauphöll Íslands daginn fyrir útgáfu verðmatsins, þann 15. nóvember 2005," segir í tilkynningu KB banka.