Greiningadeild norska fjárfestingabankans ABG Sundal Collier mælir, í greiningu sem gefin var út í gær, með kaupum í íslenska stoðtækjaframleiðandanum Össur.

ABG Sundal, sem til varð með sameiningu AGB Securities og Sundal Collier og skráður er í norsku kauphöllinni, segir Össur hafa birt jákvætt uppgjör á þriðja ársfjórðungi. Ljóst sé að Össur sé að taka á þeim vandamálum sem fyrir liggja og leggi sérstaka áherslu á starfsemi sína í Bandaríkjunum.

Bankinn segir Össur hafa fylgt uppgjöri annars ársfjórðungs vel eftir og vekur sértaka athygli á samningi Össur við Premier, sem veiti félaginu aðgang inn á bandaríska spítala. Þá segist bankinn búast við því að í Evrópu muni Össur einblína á smærri einingar á næsta ári, sérstaklega í Þýskalandi.

Bankinn segist búast við hagnaði  hjá Össur á næsta ári en félagið hafi stigið varlega til jarðar í áætlunum sínum í ár og fyrir næsta ár. Þannig gerir bankinn ráð fyrir 12% hagnaði eftir skatt og fjármagnsliði á næsta ári.