Greiningardeild Landsbankans hefur sent frá sér nýtt verðmat á Össur. Þar kemur fram að þeir telja að mjög spennandi tímar séu framundan hjá Össuri. Félagið hefur stækkað mikið á síðastliðnu ári og er áætlað að velta ársins í ár verði tæplega tvöföld velta "gamla" Össurar 2005.

"Við gerum 11,92% ávöxtunarkröfu til eigin fjár Össurar og metum virði fyrirtækisins á 608,8 m.USD (43,5 ma.kr.). Miðað við gengi Bandaríkjadals 29. mars (71,48 kr.) er verðmatsgengi Össurar 113,0 kr. á hlut. Lokagengi Össurar 29. mars var 114,5 kr. á hlut og mælum við því með að fjárfestar haldi bréfum sínum í félaginu en yfirvogi þau í vel dreifðu eignasafni.

Frá því að verðmatið kom fyrst út á fimmtudag hefur Úrvalsvísitalan lækkað um rúm 2% en hlutabréfaverð Össurar nánast staðið í stað. Þar af leiðandi hefur ráðgjöf okkar breyst úr yfirvogun í markaðsvogun.