Greiningardeild Landsbankans hefur gert nýtt verðmat á Össuri hf. Í verðmatinu meta þeir Royce Medical sem hluta af rekstri Össurar. Gert er ráð fyrir að samlegðaráhrif vegna kaupanna byrji að skila sér á tekjuhlið félagsins á næsta ári en á gjaldahlið árið 2007. Össur mun gefa út hlutafé að nafnvirði 63,4 m.kr. vegna kaupanna og er gert ráð fyrir því í verðmatinu. Útboðsgengi er 81 kr. á hlut sem er lítillega yfir verðmati okkar, en þó innan verðbils.

Miðað við gefnar forsendur og 5% vöxt stjóðsstreymis til framtíðar fæst út að virði Össurar sé 493,1 m.USD, eða 30,5 ma.kr. Miðað við hlutafé Össurar eftir þá aukningu sem fyrirsjáanleg er fæst út að verðmatsgengi Össurar sé 79,8 kr. á hlut. "Lokagengi á markaðnum þann 19.09.2005 var 85 kr. á hlut og mælum við þ.a.l. með því að fjárfestar haldi bréfum sínum í Össuri. Þá er mælt með markaðsvogun í vel dreifðu eignasafni íslenskra hlutabréfa," segir greiningardeild Landsbankans.