Greiningardeild Landsbankans mælir með að fjárfestar selji hlutabréf í Íslandsbanka og markaðsvogi bréfin vel í dreifðu eignasafni.

Þetta kemur fra í nýju verðmati sem greiningardeildin hefur unnið á Íslandsbanka. Samkvæmt því er Íslandsbanki metinn á 235,8 milljarða króna miðað við 11,7% ávöxtunarkröfu. Þetta þýðir að gengi bréfanna sé 17,1 en síðasta viðskiptagengi er 19,10.

Greiningardeild Landsbankans bendir á að miklar breytingar hafi orðið hjá Íslandsbanka að undanförnu:"Í byrjun janúar urðu umtalsverðar breytingar á eignarhaldi bankans þegar Straumur-Burðarás seldi 21% hlut í bankanum. Fjárhagsleg markmið verið endurskoðuð, auk þess sem bankinn sótti nýverið 18,6 ma.kr. í hlutafjárútboði. Helstu breytingar frá síðasta verðmati eru að vöxtur næstu þriggja ára hefur verið aukinn auk þess sem tekið hefur verið tillit til innkomu Norse Securities.

Ljóst er að væntingar á markaði eru miklar og verðmatskennitölur okkar styðja að bankinn sé hátt verðlagður. Við mælum með að fjárfestar selji bréf sín í bankanum og markaðsvogi bréfin í vel dreifðu eignasafni sem tekur mið af íslenska markaðnum."

Í tilkynningu til Kauphallarinnar í morgun kemur fram að Landsbankinn hafi eignast 349.404.348 hluti í Íslandsbanka. Eftir viðskiptin á Landsbankinn 729.273.758 hluti, eða 5,16% í Íslandsbanka, þar af eru 700.628.200 hlutir vegna framvirkra samninga, eða 4,96 % af heildarhlutafé Íslandsbanka.