Greining Íslandsbanka hefur unnið nýtt verðmat á Actavis. Verðmatið gefur niðurstöðuna 99 ma. kr. eða 35,4 kr. á hlut. Í verðmatinu er gert ráð fyrir að innri vöxtur Actavis verði ágætur á næstu árum (rétt undir 15%) og hraðari en væntur vöxtur samheitalyfjamarkaðarins almennt (12-13%). "Slíkur vöxtur er þó minni en félagið sjálft hefur sett sér markmið um. Jafnframt er gert ráð fyrir að framlegð félagsins verði góð en minni en markmið félagsins kveða á um," segir í verðmati Íslandsbanka.

Þar segir ennfremur að í ljósi verðmatsins mælum þeir með að fjárfestar selji bréf í Actavis. "Ráðgjöf okkar til skemmri tíma er að fjárfestar markaðsvegi bréfin í vel dreifðum eignasöfnum sem taka mið af íslenska markaðinum," segir í tilkynningu Íslandsbanka.