Að mati Greiningardeildar Landsbankans er virði Bakkavör Group hf. 44,5 ma.kr. sem gefur verðmatsgengið 21,3 kr. á hlut. Lokagengi félagsins á markaðnum í gær var 28,4 sem er rúmlega 30% hærra en verðmatsgengið. Er því mælt með sölu á bréfum Bakkavarar.

Greiningin er í raun tvíþætt, annars vegar verðmat á rekstri Bakkavarar eins og hann er í dag og hins vegar mat á kaupum félagsins á breska matvælaframleiðandanum Geest plc. Verðmat var unnið á báðum félögum og reynt að áætla hvernig fjármögnunin færi fram. Niðurstaða þess er að miðað við gefna hlutafjáraukningu sé gengi hins sameinaða félags 23,7 kr. á hlut, án samlegðaráhrifa.

Settar eru fram fimm sviðsmyndir á hugsanlegum samlegðaráhrifum og gefur niðurstaða þeirra gengi á bilinu 23,7 - 29,6 kr. á hlut. Hafi fjárfestar trú á því að Bakkavör yfirtaki Geest er ljóst að betra kauptækifæri er í bréfum Geest en Bakkavarar, en nánar er fjallað um það í greiningu Landsbankans.