Landsbankinn hefur sent frá sér nýtt verðmat á Íslandsbanka. Miklar breytingar hafa orðið á bankanum síðan síðasta verðmat Landsbankans var unnið fyrir ári síðan. Bankinn keypti Kredittbanken í Noregi, er langt kominn með kaup á BNbank í Noregi og hefur sótt um leyfi til fjármálaeftirlitsins í Lúxemborg um stofnun banka þar í landi. Einnig byrjaði Íslandsbanki, eins og aðrir bankar og sparisjóðir, að bjóða upp á íbúðalán í lok ágúst á síðasta ári.

Niðurstaða verðmatsins er að Íslandsbankasamstæðan sé 132,1 ma.kr. virði og er það miðað við að meðaltali 11,4% ávöxtunarkröfu til eigin fjár. Miðað við að útistandandi hlutafé bankans sé 12.918 milljón hlutir þá er niðurstaðan verðmatsgengið 10,2. Lokagengi á markaði í gær var 11,3 og því mælum við með að fjárfestar selji bréf sín segir í frétt greiningardeildar Landsbankans. Þeir taka fram að í vel dreifðum eignasöfnum er mælt með markaðsvogun.