Nýlega lauk umfangsmiklum mælingum á hafsbotninum umhverfis Ísland til þess að komast að því hversu langt íslenska landgrunnið teygir sig út fyrir 200-sjómílna efnahagslögsöguna. Gerðir hafa verið út 11 skipaleiðangrar á undanförnum þremur árum til mælinga á neðansjávarlandslagi, þykkt setlaga og eðli jarðskorpunnar undir setlögunum, en samkvæmt Hafréttarsamningnum ráðast ytri mörk landgrunnsins af þessum einkennum. Frestur íslenskra stjórnvalda til að skila greinargerð til Landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna um landgrunnsmörkin og þau gögn sem þau byggja á er 13. maí 2009.

Mælingarnar voru kostaðar fé sem utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra beittu sér fyrir að alþingi veitti til verkefnisins. Iðnaðarráðuneytið fól Orkustofnun að hafa umsjón með mælingunum en sérfræðiráðgjöf hefur verið í höndum Íslenskra orkurannsókna og einstakir verkþættir í höndum ýmissa verktaka.

Hafrannsóknastofnunin hefur annast framkvæmd allra dýptarmælinga og beitt við þær rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni og öflugum fjölgeislamæli þess með mjög góðum árangri. Framkvæmd hljóðendurvarpsmælinga og bylgjubrotsmælinga og eftirlit með öllum mælingum hefur hins vegar verið í höndum erlendra aðila. Mælingunum er nú lokið og vinna hafin við úrvinnslu og túlkun.