Greiningardeild Kaupþings hefur hækkað verðmat sitt á Marel í 76,8 krónur á hlut úr 74,4 og metur tólf mánaða markgengi sem 84 en það var 83 í fyrra verðmati. Gengi Marel við lok markaðar var 78,5 krónur á hlut, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

?Mælum við með að fjárfestar auki við sig í Marel (e. accumulate),? segir greiningardeildin.

Hún telur að horfur séu á óverulegum innri vexti félagsins til skamms tíma, eða fram að miðju ári 2007, samhliða samruna og samþættingu félagsins við Scanvaegt sem nú stendur yfir.

?Hafa forsvarsmenn félagsins sagt að stefnt sé að ljúka því ferli eins fljótt og hægt er. Á sama tíma mun falla til töluverður kostnaður því tengt, sérstaklega á yfirstandandi fjórðungi og fyrsta fjórðungi næsta árs.

Til lengri tíma litið er útlitið nokkuð gott að okkar mati. Horfum við meðal annars til mikillar fjárfestingargetu, í kjölfar hlutafjárútboðs í september, sem gera má ráð fyrir að verði nýtt til frekari ytri vaxtar félagsins á næstu misserum. Áætlum við að félagið geti ráðist í fyrirtækjakaup fyrir allt að 300 milljón evrur án þess að þurfa að þynna hlutafé nokkuð frekar,? segir greiningardeildin.

Áætluð skattprósenta Marel samstæðunnar hefur verið lækkuð í 24% úr 28%, í verðmatinu. ?Er þessi breyting gerð í ljósi þess að Marel flytur stöðugt meira af framleiðslustarfsemi sinni til Slóvakíu en þar eru fyrirtækjaskattar 19%,? segir greiningardeildin.